Amnesty International hvetur þingmenn til að skrifa undir áætlun um að binda enda á „ólöglegt varðhald"

Íslandsdeild Amnesty International hefur sent öllum þingmönnum bréf þar sem þeir eru hvattir til að skrifa undir áætlun samtakanna um að binda enda á „ölöglegt varðhald í stríðinu gegn hryðjuverkum". Þetta er hluti af alþjóðlegum aðgerðum samtakanna þar sem stefnt er að því að fá 1000 þingmenn frá ríkjum heimsins til að leggja áætluninni lið og þrýsta þannig á Bandaríkjastjórn að loka bæði leynifangelsum og fangabúðunum við Guantánamo-flóa. Þegar hafa nokkrir íslenskir þingmenn skrifað undir áætlun Amnesty International.

Í bréfinu segir að stefna og framkvæmdir Bandaríkjanna er lúta að varðhaldi í „stríðinu gegn hryðjuverkum" hafi grafið undan alþjóðlegri mannréttindalöggjöf. Hátt settir yfirmenn í Bandaríkjastjórn, þ.á.m. George W. Bush forseti, hafi sagt að Guantánamo eigi að loka. Það skuli þó gert með þeim hætti að mannréttindi fanganna verði virt. Lokun Guantánamo megi heldur ekki nota sem afsökun til að flytja fanga annað eða til að draga athygli frá því kerfi framsals og leynivarðhalds sem Bandaríkin viðhalda.

„Amnesty International hvetur bandarísk yfirvöld til að loka Guantánamo á gagnsæjan hátt, með virðingu fyrir mannréttindum fanganna sem skulu aðeins sóttir til saka fyrir dómi sem stenst alþjóðleg viðmið um réttláta dómsmeðferð," segir í fréttatilkynningu. Þá hvetur Amnesty International bandarísk yfirvöld jafnframt til að láta af þvinguðum mannshvörfum og leynilegu varðhaldi þar sem slíkt brjóti gegn alþjóðlegum skuldbindingum Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert