Átti að vaða yfir okkur

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Þorkell
Eftir Pétur Blöndal pebl@mbl.is

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og stjórnarmaður í Orkuveitunni var einangraður í afstöðu sinni innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins en hann hefur verið fylgjandi sameiningu. Vilhjálmur hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að keyra sameininguna í gegn og virða algjörlega að vettugi vilja meirihlutans í borgarstjórnarflokknum.

Mikill skjálfti hefur verið í borgarstjórnarflokknum af þessum sökum og hefur hann hist reglulega á fundum án Vilhjálms. Samkvæmt öðrum heimildum Morgunblaðsins komu hjá einhverjum upp hugmyndir um að slíta samstarfinu við Framsóknarflokkinn og mynda nýjan meirihluta með Vinstri grænum. „Það átti að vaða yfir okkur."

Nú er hins vegar stefnt að því að ná samkomulagi á fundi borgarstjórnarflokksins, sem haldinn verður kl. 12 í dag í Ráðhúsi Reykjavíkur, og verður blaðamannafundur í kjölfarið.

Líkleg niðurstaða fundar borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í dag er sú að Orkuveita Reykjavíkur eigi að draga sig út úr rekstri REI með því að selja sinn hlut. Nefnt hefur verið fjölbreytt eignarhald. Ekki er þó hægt að bjóða almenningi að kaupa hlut í félaginu fyrr en það er komið á markað, en í því sambandi hefur verið horft til þriggja ára.

„Þess verður freistað að ljúka málinu á þann hátt að Orkuveitan selji sig út úr þessu og láta eins og þetta hafi aldrei gerst."

Upphaf deilnanna má rekja til þess að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru boðaðir til „skyndifundar" um málefni Orkuveitunnar í stöðvarstjórahúsinu í Elliðaárdalnum á þriðjudagskvöld og vissu aðeins Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson fundarefnið. Þar voru fulltrúar annarra sveitarfélaga sem sæti eiga í stjórn Orkuveitunnar, Borgarbyggðar og Akraness. Þá var þar Haukur Leósson, stjórnarformaður Orkuveitunnar og stjórnarmaður í REI, og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI.

Eins og fundinum er lýst fyrir blaðamanni var fólk boðið velkomið og síðan brugðið upp glæru þar sem stóð: „Samruni REI við Geysi Green Energy." Einn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemst svo að orði: „Þetta var það fyrsta sem við sáum um málið. Við höfðum ekki haft af því minnsta veður."

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert