Kínverjar vilja stórefla samvinnu við Ísland um jarðnýtingu

Kínverjar vilja nýta þá þekkingu sem Íslendingar hafa af jarðhita.
Kínverjar vilja nýta þá þekkingu sem Íslendingar hafa af jarðhita. mbl.is/RAX

Kínverskir ráðamenn lýstu yfir eindregnum vilja til að stórefla samvinnu við Ísland um jarðhitanýtingu er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, heimsótti Xian Yang borg og Shaanxi fylki í Kína í gær.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá skrifstofu forsetans að fyrsti áfangi hitaveitunnar í Xian Yang, sem reist er í samvinnu Glitnis, Orkuveitu Reykjavíkur og Enex við Sinopec, þriðja stærsta orkufyrirtæki Kína, sýni að raunhæft sé að hefjast nú þegar handa um undirbúning næstu áfanga.

Þá segir að kínversk stjórnvöld hafi valið borgina sem miðstöð jarðhitanýtingar í Kína og vilji gera hana að sýnishorni þess sem hægt sé að gera víða í Kína.

Á fundi forseta Íslands með forseta Kína, Hu Jintao, fyrir nokkrum dögum lýsti forseti Kína eindregnum stuðningi við þessa samvinnu enda væri hún veigamikið framlag til að breyta orkubúskap Kínverja í átt til hreinnar orku.

Ólafur Ragnar skoðaði hina nýju hitaveitu í Xian Yang en aðeins eru tvö ár liðin frá því undirritaðir voru samningar um það verkefni þegar forseti kom í opinbera heimsókn til Kína. Lýstu heimamenn mikilli ánægju með hversu hratt og vel framkvæmdirnar hefðu gengið og kynntu forseta hvernig áformað væri að stækka hitaveituna frá einu hverfi til annars á næstu árum. Nú þegar hefði framkvæmdin sýnt að hún gæti orðið öðrum borgum fyrirmynd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert