Meirihlutinn í borgarstjórn fundar um niðurstöðu sjálfstæðismanna

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins munu koma saman til fundar til að ræða niðurstöðu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um að stefnt verði að því að selja hlut Orkuveitunnar í Reykjavík Energy Invest. Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgararáðs og borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagðist ekki vilja tjá sig um niðurstöðuna fyrir að fundinum loknum.

Björn Ingi segist hafa fengið að vita hver niðurstaðan varð af fundi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins stuttu eftir að honum lauk. Hann segir að hann muni ræða málið betur við borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á eftir. Aðspurður segir hann að ekki sé búið að ákveða fundartíma, en hann mun einnig funda sem samflokksmönnum sínum í borgarstjórn. „Ég vil því ekki tjá mig fyrr en ég er búinn að heyra umræðurnar og hvað fór fram,“ sagði Björn Ingi í samtali við mbl.is.

Aðspurður um hvort hann hafi fundið fyrir mikilli ólgu meðal flokksmanna sinna í Framsóknarflokknum vegna OR-málsins segir Björn Ingi að það geti vel verið að skiptar skoðanir séu meðal manna innan flokksins. „En það er ágætis sátt innan borgarstjórnarhópsins í Reykjavík. Það er í þeim hópi sem ég er að vinna,“ sagði Björn Ingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert