Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur, segir algerlega ótækt að innanflokks átök í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokks leiði til ákvarðana eins og þeirra, að selja milljarðahlut í opinberum fyrirtækjum á borð við Reykjavik Energi Invest.
Dagur sagði, að það hefði sýnt sig á undanförnum dögum, að slíkar ákvarðanir væru teknar í bakherbergjum líkt og á þeim fundi, sem nú stendur yfir í Ráðhúsinu en þar ræða sjálfstæðismenn mál fyrirtækisins og aðdraganda þess að ákveðið var að sameina REI og Geysir Green Energy.
Dagur sagði, að auðvitað ætti útrás í orkumálum að skila sér til almennings en það hvernig staðið var að þessu máli, hafi eyðilagt möguleika á, að slíkt gæti átt sér stað með eðlilegum hætti.
Minnihlutaflokkarnir í borgarstjórn hafa óskað eftir aukafundi í borgarstjórninni um mál Reykjavik Energy Invest. Dagur sagði, að Samfylkingin hefði ekki enn fengið þau gögn, sem hún hefði beðið um og ætti fullan rétt á að fá. Sennileg yrði að sækja þau upp í Orkuveitu Reykjavíkur.