Fyrirtækið Nordic Construction Line (NCL), segist fagna því að lögreglurannsókn sé hafin á málefnum lettneskra verkamanna sem starfa á vegum NCL við Hraunárveitu Kárahnjúkavirkjunar.
Í yfirlýsingu frá NCL segir, að í fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga hafi órökstuddar ásakanir og dylgjur forsvarsmanna AFLs starfsgreinafélags verið áberandi. NCL lýsi yfir undrun sinni á þessum málflutningi en sjái ekki ástæðu til þess, að svo stöddu, að svara einstökum ásökunum AFLs, enda sé um lögreglumál að ræða, sem verði til lykta leitt í dómskerfinu en ekki fjölmiðlum.
„NCL þykir miður að með málflutningi sínum hafa talsmenn AFLs vegið að heiðri NCL og GT verktaka og ekki síður að starfsmönnum fyrirtækjanna og fjölskyldum þeirra, hér á landi og í Lettlandi. Verktakafyrirtækið NCL, sem jafnframt sinnir starfsmannaleigu, er í eigu sömu aðila og eiga GT verktaka. NCL er útrásarfyrirtæki með starfsemi í þremur löndum, Noregi, Lettlandi og Íslandi," segir í tilkynningunni.