Segir niðurstöðu sjálfstæðismanna sátt um áframhaldandi völd

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, segir ljóst að niðurstaða borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna sé sátt um áframhaldandi völd í Ráðhúsinu í Reykjavík en ekki sátt um vinnubrögð, heiðarleika, skilning á lýðræði og samráð. Jafnframt sé hún sátt um að viðhalda völdum Framsóknarflokksins í borginni.

Í yfirlýsingu frá Svandísi segir, að enn hafi ekki verið lagður fram listi yfir eignir Reykjavik Energy Invest. Spyr Svandís hvort einkavæða eigi hlut fyrirtækisins í Hitaveitu Suðurnesja, hvort einkavæða eigi sérþekkingu Orkuveitu Reykjavíkur og hvort eigi að einkavæða fyrirtækið á grundvelli verðmats Hannesar Smárasonar og Bjarna Ármannssonar.

„Hverjir munu kaupa aðrir en þeir sem þegar hafa eignast umtalsverðan hlut í fyrirtækinu? Var samruni fyrirtækjanna löglegur yfir höfuð? Þessum spurningum hefur ekki verið svarað.

Ljóst er að borgarstjóri hefur teflt mjög alvarlega af sér í þessu máli. Hann hefur farið á bak við borgarbúa, samflokksmenn sína innan og utan borgarstjórnar sem og aðra kjörna fulltrúa í borgarstjórn. Hann hefur farið á svig við lög og tekið þátt í ósiðlegu atferli sem ofbýður fólki um allt land. Fólk vill ekki slíka stjórnendur. Borgarbúar treysta ekki slíkum borgarstjóra þótt borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins virðist greinlega ekki gera sömu kröfur," segir í yfirlýsingu Svandísar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert