Innbrotum fækkar ár frá ári

Innbrotum hefur fækkað á Íslandi á undanförnum árum. Þetta sýnir afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra. Á sama tíma auglýsir Securitas að heimili fólks sé opið allan sólarhringinn sé það ekki áskrifandi að heimavörn fyrirtækisins.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðissins segir marga þætti geta skýrt fækkunina: "Eitt er skráningin á þessum málum. Annað er að löggæslan hefur verið efld á undanförnum árum og fræðsla til almennings um það hvar innbrot eru framin og hvernig er hægt að verjast þeim hefur verið aukin," segir hann.

Stefán nefnir einnig að þeim hafi fjölgað sem lögreglan er með í síbrotagæslu og þannig eru þeir sem fremja innbrotin teknir úr umferð í meira mæli. "Það hefur alveg augljóslega skilað sér í því að innbrotum hefur fækkað."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert