Segist ekki skilja þörf á samruna útrásarfyrirtækja í jarðhitanýtingu

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni, að hann skilji ekki hvers vegna það skipti sköpum fyrir Íslendinga á sviði jarðhitanýtingar á alþjóðavettvangi, að aðeins eitt fyrirtæki sækist eftir verkefnum héðan.

„Hvers vegna eru svona margar íslenskar fjármálastofnanir að sinna alþjóðlegum verkefnum? Af hverju taka þær ekki höndum saman í einu íslensku fjármálafyrirtæki á alþjóðavettvangi? Á sínum tíma sameinuðust fiskframleiðendur um sölusamtök til að styrkja stöðu sína á alþjóðamörkuðum - sá tími er liðinn við fisksölu. Nú er hins vegar talað um þessa aðferð sem sérstakt bjargráð við útflutning á jarðhitaþekkingu," segir Björn á heimasíðu sinni.

Hann segir einnig, að um langt árabil hafi Íslendinga dreymt um að geta nýtt jarðhitaþekkingu sína á alþjóðavettvangi. Þróun orkuverðs undanfarin misseri geri kleift að nýta orkugjafa, sem áður vöktu ekki sérstakan áhuga. „Að verja eigi eignum Reykvíkinga til áhættufjárfestinga á Filippseyjum eða í Indónesíu á ekkert skylt við skoðanir mínar á útrás á þessu sviði - vilji einstaklingar eða fyrirtæki þeirra hætta fé sínu á þennan hátt hafa þeir fullt frelsi til þess," segir Björn.

Heimasíða Björns

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert