Yfirlýsing frá almennum starfsmönnum GT verktaka

Fréttavefur Morgunblaðsins hefur fengið senda yfirlýsingu frá almennum starfsmönnum GT verktaka ehf. Þar eru formaður og lögmaður Starfsgreinasambands Austurlands harðlega gagnrýndir vegna frétta sem fluttar hafa verið um starfsemi félagsins og aðbúnað útlendra starfsmanna þess.

    Vegna fréttaflutnings að undanförnu viljum við koma eftirfarandi á framfæri.

    Formaður og lögmaður Starfsgreinasambands Austurlands hafa að undanförnu farið mikinn í fjölmiðlum fyrir að þeirra sögn baráttu fyrir réttindum erlends verkafólks. Þessi barátta sem hefur farið fram í fjölmiðlum hefur einhliða og eingöngu snúist um að koma á framfæri órökstuddum dylgjum og hreinum ósannindum gagnvart fyrirtæki okkar GT verktökum ehf. og má minna á að öll mál hafa tvær hliðar. Þau gífuryrði sem fram hafa komið og þær tilvitnanir sem stuðst hefur verið við eru engan veginn sæmandi fólki sem vill láta taka mark á sér. Vinnubrögð framkvæmdastjóra og lögmanns Starfsgreinasambands Austurlands hafa fyrst og fremst verið til þess fallin að valda múgæsingu í þeim eina tilgangi að skaða fyrirtæki okkar og okkur starfsmenn þess um leið.

    Það er ólíðandi fyrir okkur að sitja undir og una við að vinnubrögð af þessu tagi komi niður á okkur starfsmönnum og fjölskyldum okkar úti í samfélaginu fyrir utan að horfa upp á ósanngjarna og hatramma hreina aðför að eigendum fyrirtækisins. Almennir starfsmenn þurfa að þola dylgjur, hrakyrði og jafnvel hótanir frá fólki sem það þekkir ekki neitt. Þessar aðfarir hafa kostað okkur starfsfrið og ógna verulega starfsöryggi okkar og vísum við allri ábyrgð vegna þess algerlega á forsvarsmenn Starfsgreinasambands Austurlands.

    Séu grunsemdir um að brotið hafi verið á starfsmönnum verður að fara með slík mál eftir réttum leiðum og aðferðum og á það jafnt við um okkur og aðra og jafnt ef þeir eru íslenskir eða erlendir. Við höfum reyndar ekki nokkra trú á að fótur sé fyrir að einhver brot hafi átt sér stað af hálfu fyrirtækis okkar eða forsvarsmanna, í versta falli er um einhvern misskilning að ræða. Yfirlýsingar að undanförnu sem komið hafa frá Starfsgreinasambandi Austurlands eru þess eðlis að götustrákar gengjust varla við þeim.

    Við viljum ekki hafa uppi stóryrði að hætti forsvarsmanna Starfsgreinasambands Austurlands en við frábiðjum okkur aðdróttanir og vinnubrögð af þessu tagi. Mannorðsmorð og atvinnumissir samhliða rógburði af verstu tegund getur varla verið til hagsbóta fyrir einn né neinn og er hreint óskiljanlegt að slíkt komi frá verkalýðsfélagi eins og við teljum Starfsgreinasamband Austurlands vera. Opinberu félagslegu fyrirbæri eins og Starfsgreinasambandi Austurlands ber skylda til að viðhafa vönduð vinnubrögð en ekki dylgjur og róg í gegnum fjölmiðla.

    Samskipti okkar, jafnt erlendra sem íslenskra starfsmanna við eigendur og stjórnendur GT verktaka hafa verið mjög góð og framkoma þeirra í okkar garð hefur verið til fyrirmyndar. Því lýsum við yfir mikilli vanþóknun á vinnubrögð Starfsgreinasambands Austurlands og áskiljum okkur allan rétt til skaðabóta vegna aðfarar þess að starfsöryggi okkar og heiðri.

    Undir þetta ritar formaður starfsmannafélags GT verktaka fh allra þeirra er samband náðist við en 66 starfsmenn þess eru dreifðir um allt land. Við viljum hins vegar binda vonir við að Starfsgreinasambands Austurlands komi til með að vinna frekar fyrir félagsmenn en gegn þeim eins og hér um ræðir.

Undir yfirlýsinguna ritar Þórhallur V. Einarsson fyrir hönd starfsmanna og starfsmannafélagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert