Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um sölu á áfengi. Sigurður Kári Kristjánsson ásamt 16 öðrum þingmönnum leggur til að leyft verði að aflétta einokun ÁTVR á sölu á léttvíni og bjór.
Sitt sýnist hverjum, andstæðingar frumvarpsins hafa áhyggjur af að neysluvenjur almennings og þá sér í lagi unga fólksins muni breytast til hins verra ef aðgengi að áfengi verði auðveldað og aukið.
Starfsfólk í vínbúðum sagði í óformlegu spjalli við Fréttavef Morgunblaðsins að það hefði áhyggjur af því að störfum myndi fækka og að útsölur úti á landi myndu leggjast niður og að vöruframboð yrði fátæklegra.
Kaupmenn telja að á því herrans ári 2007 sé kominn tími til að gefa sölu á léttvíni lausa en einn verslunarstjóri kjörbúðar sem Fréttavefur Morgunblaðsins ræddi við sagðist hafa áhyggjur af því að erfitt yrði fyrir ungt fólk sem vinnur í stórmörkuðum að krefja jafnvel sér eldra fólk um skilríki og hugsanlega neita þeim um afgreiðslu á léttvíni.