Björn Ingi: Handsalaði ekki samkomulag um áframhaldandi samstarf

Oddvitar flokkanna fjögurra, sem nú hafa náð samkomulagi um nýjan …
Oddvitar flokkanna fjögurra, sem nú hafa náð samkomulagi um nýjan meirihluta í borgarstjórn. mbl.is/Golli

Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld að það væri ekki rétt að þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hafi handsalað í gærkvöldi samkomulag um að þeir myndu halda áfram samstarfi og vinna að því að leysa ágreining um Reykjavik Energy Invest.

Björn Ingi sagðist hafa farið heim til sín eftir fund borgarstjórnar og meirihlutans í gærkvöldi og síðan rætt við Vilhjálm í síma og aftur í morgun. Eftir það hafi leiðtogar fyrrverandi minnihlutaflokka óskað eftir því að koma heim til Björns Inga til að ræða við hann og niðurstaðan hefði orðið þessi.

Dagur B. Eggertsson, væntanlegur borgarstjóri, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins, að ný meirihlutamyndun hefði tekið jafn stuttan tíma og raun bar vitni vegna þess að nýr meirihluti hefði gert samkomulag um að gæta almannahagsmuna. Aðstæðurnar hefðu verið mjög sérstakar, þetta hefði kallað á hröð viðbrögð af hálfu minnihlutans og Björn Ingi hefði axlað ábyrgð.

Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG í borgarstjórn, sagði að ágreiningur Björns Inga við Sjálfstæðisflokksins hefði kristallast á borgarstjórnarfundinum í gær og því hefði verið eðlilegt að ræða við hann.

Margrét Sverrisdóttir, borgarfulltrúi F-lista, sagði aðspurð hvort hún væri tilbúin að kyngja öllu því sem hún hefði sagt um Björn Inga, að þetta væri nýtt upphaf og ný byrjun. Þetta væri eina leiðin sem fær væri og búið væri að semja um að taka Orkuveitumálið og setja það í stýrihóp. Sagðist Margrét treysta Svandísi til að leiða það mál.

Dagur sagði, að gripið hefði verið inn í ferli sem orðið var stjórnlaust og skynsemin hefði tekið völdin. Tekinn verði tími í að fá öll þessi mál upp á borðið. Þá sagði hann, að málefnaáherslur myndu fljótt sjást.

Björn Ingi sagði, að ekkert annað hangi á spýtunni varðandi samstarfsslitin en þau mál, sem komið hefðu upp síðustu daga í tengslum við Orkuveitu Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert