Bónus og Krónan bítast

Matvöruverslun
Matvöruverslun

Af 33 vörutegundum sem bornar voru saman í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í fjórum lágvöruverðsverslunum á höfuðborgarsvæðinu í gær var Bónus með lægsta verðið í 20 tilfellum og Krónan í 10 tilvikum. Í 13 tilvikum munaði einni krónu og þrisvar var munurinn 2-4 krónur. Nettó var með hæsta verðið í 21 tilviki.

Eins og fyrr segir var könnunin gerð í gær, miðvikudag, en daginn áður hafði verðlagseftirlit ASÍ gert samskonar könnun í sömu búðum. Niðurstöðurnar eru þó einungis fengnar úr seinni könnuninni.

Eysteinn Helgason, framkvæmdastjóri Kaupáss, sem m.a. rekur Krónuna, gerir verulegar athugasemdir við þessa endurtekningu og í samtali við Morgunblaðið sagði hann að í gær, þegar könnunin fór fram, hefði Bónus lækkað verð á veigamiklum vöruliðum. Sama verð hefði gilt í báðum könnunum hjá Krónunni. Viðskiptavinir Krónunnar gætu vel við unað. Í þeim tilvikum þar sem varan væri til í öllum verslunum, væri verð körfunnar í Krónunni lægst eða 8.655 krónur en karfan hjá Bónusi væri þúsund krónum hærri.

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, sagði að Bónus hefði ekki breytt verði á milli kannana. Hins vegar hefði ekki verið kannað verð á sömu vörumerkjum á kjötvörum báða dagana. Aftur á móti hefði Bónus sent athugasemdir við vinnubrögð Krónunnar til verðlagseftirlits ASÍ þar sem Krónan hefði, meðan seinni könnunin fór fram, sett upp skilti um að 10% afsláttur væri á öllum ostum og 20% afsláttur af öllum unnum kjötvörum. ASÍ hefði greinilega látið blekkjast af þessum vinnubrögðum. Fleira væri ámælisvert.

Þetta er í fyrsta skipti sem ASÍ gerir verðkannanir með eins dags millibili en að sögn Ólafs Darra Andrasonar, hagfræðings ASÍ, er ástæðan sú að ákveðnir hnökrar voru á framkvæmd fyrri könnunarinnar og til þess að framkvæmdin yrði hafin yfir vafa var ákveðið að endurtaka hana. Ólafur Darri vildi ekki greina frá því í hverju mistökin voru fólgin en þau hefðu komið í ljós við skoðun innanhúss. Aðspurður hvort einhver hætta væri á því að verslanir hefðu spilað á verðlagseftirlitið með því að lækka verð á milli kannana, sagði hann að engin hætta ætti að vera á því. „Verslanirnar höfðu enga vitneskju um að við myndum endurtaka könnunina strax daginn eftir," sagði Ólafur Darri.

Heimasíða ASÍ

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert