„Borgin í raun leiðtogalaus undanfarna daga"

Mbl.is/ Ómar
Eftir Sigrúnu Birnu Birnisdóttur

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir ljóst að það sé Sjálfstæðisflokknum mikil vonbrigði að missa meirihlutann í Reykjavík. Hún telji hins vegar málefnalega stöðu flokksins í borginni sterka og að staða þeirra sex borgarfulltrúa flokksins, sem stóðu fyrir utan hið umdeilda Orkuveitumál, hafi ekki veikst vegna þess.

„Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að koma ýmsum málum á ágætt skrið áður en þetta mál kom upp og það stóðu í raun ekki miklar deilur um þau mál sem unnið var að. Flokkurinn sætti helst gagnrýni fyrir það að hafa ekki tekist að leysa viðvarandi vanda í leikskólamálum borgarinnar en það er í raun vandi sem Reykjavíkurlistanum tókst heldur ekki að leysa,” sagði hún er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í kvöld. „Ég held því að þegar mestu vonbrigðin verða gengin yfir muni sjálfstæðismenn sjá að staða flokksins í borginni er í raun ágæt.”

Stefanía segir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fráfarandi borgarstjóri, hafi hins vegar greinilega misreiknað stöðuna og málað sig út í horn og það hafi gert það að verkum að borgin hafi í raun verið leiðtogalaus undanfarna daga. Hann hafi upphaflega lýst yfir ánægju með samrunasamning Reykjavik Engery Invest og Geysir Green Energy og síðan reynt að draga í land. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi einnig reynt að vinda ofan af málinu þannig að bæði flokkurinn og borgarstjóri gætu haldið andlitinu en það hafi ekki gengið. „Hann tók greinilega ekki nógu mikið mark á efasemdum samherja sinna í borgarstjórn,” segir hún. „Hann vanmat sannfæringu þeirra og þó það virðist ekki vera upplifun þeirra sjálfra að samstöðuleysi hafi orðið meirihlutanum að falli er það tilfinning okkar sem horfum á þetta utanfrá."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert