Flóafélög vilja auka kaupmátt og hækka lægstu laun

mbl.is

Mikill meirihluti félagsmanna í Flóafélögunum svonefndu leggja áherslu á að samið verði um aukinn kaupmátt launa í stað prósentuhækkunar í komandi kjarasamningum, skv. nýrri Gallup-könnun, sem unnin var fyrir félögin. Yfirgnæfandi meirihluti eða rúm 75% vilja leggja sérstaka áherslu á verulega hækkun lægstu launa, þó að það hefði í för með sér minni almenna hækkun launa.

Að Flóabandalaginu standa Efling-stéttarfélag, Hlíf í Hafnarfirði, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og Verkalýðs- og sjómannafélagið Boðinn. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir niðurstöður kjarakönnunarinnar mjög skýrar og þær séu mikilvægt veganesti inn í kjaraviðræðurnar.

Verkalýðsfélag Húsavíkur samþykkti kröfugerð á félagsfundi sl. mánudag. Mun félagið m.a. krefjast þess að lágmarkslaun hækki úr 125 þúsundum í 180 þúsund ef samið verður til tveggja ára og að mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð starfsmanna verði hækkað á næstu fjórum árum úr 8% í 11,5%.

Á fulla ferð eftir ársþing ASÍ

Hjólin eru farin að snúast í kjaraviðræðum á almenna vinnumarkaðinum. Viðræður eru hafnar á milli launaþegasamtaka og vinnuveitenda um viðræðuáætlanir. Sameiginleg samninganefnd Flóafélaganna kom saman í gærkvöldi vegna undirbúnings kjaraviðræðna en þau ætla að standa saman að næstu samningsgerð. Ekki er þó reiknað með að eiginlegar samningaviðræður verði komnar á fulla ferð fyrr en að loknu ársþingi ASÍ, sem haldið verður á fimmtudag og föstudag í næstu viku. Könnunin leiðir einnig í ljós verulegan launamun kynjanna. Konur eru að jafnaði með rúmlega 17% lægri grunnlaun en karlar. Að teknu tilliti til aldurs, starfsaldurs og starfsstéttar er launamunurinn 12,6%.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka