„Hugur í Húsvíkingum“

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/G.Rúnar

„Mér finnst nú bara vera hugur í Húsvíkingum. Það er greinilegt að þeir búast við því að það sé að koma álver til þeirra,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spurður út í nýsamþykkta kröfugerð Verkalýðsfélags Húsavíkur að hækka beri lágmarkslaun úr 125 þúsundum í 180 þúsund kr. á samningstímanum. Vilhjálmur segist ekki leggja djúpstæða merkingu í tölurnar enda liggi engin vinna að baki þeim.

„Þetta byggir ekki á neinum rannsóknum á launagreiðslum eða launaþróun eða neinu slíku,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir SA hafa verið að rýna í tölur sem sýna hvernig launaþróun hefur verið í landinu á þessu samningstímabili sem er að ljúka. Hún hafi skilað starfsfólki íslenskra fyrirtækja mikilli kaupmáttaraukningu. „Hún er mjög vel dreifð yfir öll svið í rauninni. Bæði hjá láglaunafólki og þeim sem eru hærra launaðir.“

Stöðugleiki lykilatriði

Vilhjálmur segir núverandi viðfangsefni vera það að vinna á grundvelli stöðugleikans og reyna að ná sem best utan um þá hópa sem hafa ekki notið launaskriðs og setið eftir.

„Við teljum ekki skynsamlegt að gera samninga sem raska samningsstöðu íslensks atvinnulífs,“ segir Vilhjálmur aðspurður um hvernig hann sjái málin þróast í komandi kjaraviðræðum. Hann segir stöðugleikann vera lykilatriði í þessu og það að geta tekið á þeim vandamálum sem séu til staðar.

Hann segir þá forystumenn sem SA hafi rætt við innan verkalýðshreyfingarinnar vera sammála um að hafa stöðugleikann sem útgangspunkt. Þannig nái menn bestum árangri segir Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert