Sviptingar í borgarstjórn

Samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur var slitið í dag og nýr borgarstjórnarmeirihluti kynntur til sögunnar. Klukkan hálf fimm var boðaður blaðamannafundur þar sem nýr borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri Grænna, Framsóknarflokks og F-lista var kynntur á tjarnarbakkanum við Ráðhúsið.

Skömmu eftir fundinn á tjarnarbakkanum var boðaður blaðamannafundur sjálfstæðismanna fyrir utan heimili Vilhjálms þar sem kom fram að þeim þætti hart að Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknarflokks, skyldi slíta samstarfinu við minnstu mótstöðu.

Niðurstaða hins nýja samstarfs er sú að Dagur B. Eggertsson verður borgarstjóri, Svandís Svavarsdóttir verður pólitískur staðgengill borgarstjóra og leiðir starf meirihlutans í stefnumótun í málefnum Orkuveitunnar, umhverfismálum, samgöngumálum, skipulagsmálum, Sorpu og Strætó.

Björn Ingi Hrafnsson verður formaður borgarráðs og leiðir starf meirihlutans í íþrótta- og tómstundamálum og stjórn Faxaflóahafna.

Margrét Sverrisdóttir verður forseti borgarstjórnar og leiðri starf meirihlutans í menningar- og ferðamálum.

Á fundinum kom jafnframt fram að samkomulag hefði orðið um að Samfylkingin leiði starf meirihlutans í mennta- og velferðarmálum auk málefna Orkuveitunnar. Vinstri græn munu leiða starf meirihlutans í jafnréttis- og mannréttindamálum. Framsóknarflokkurinn mun einbeita sér að málefnum Eignasjóðs og F-listi leiðir störf innan heilbrigðisnefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka