Vilhjálmur: Ákvörðun Björns Inga um samstarfsslit fyrirvaralaus

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks ræða við blaðamenn utan við heimili Vilhjálms Þ, …
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks ræða við blaðamenn utan við heimili Vilhjálms Þ, Vilhjálmssonar í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokks, segir að ákvörðun Björns Inga Hrafnssonar um að slíta meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn hafa verið einhliða og fyrirvaralaus. Sagðist Vilhjálmur ekki hafa mikla trú á þeim meirihluta, sem nú hefur verið myndaður. Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi, sagðist telja að Björn Ingi hefði sýnt mikil óheilindi.

Vilhjálmur sagði að seint í gærkvöldi hefði hann átt samtal við Björn Inga þar sem þeir handsöluðu samkomulag um að halda áfram samstarfinu í borgarstjórn. Sagðist Vilhjálmur hafa átt von á Birni Inga á fund klukkan 10:30 í morgun en hann kom ekki þangað og ekki heldur á meirihlutafund í Höfða eftir hádegið. Sagðist Vilhjálmur hafa verið farinn að halda að eitthvað hefði komið fyrir Björn Inga.

Hann sagði, að Björn Ingi hefði síðan hringt í sig í dag og beðið um fund. Þar kom fram, að skömmu eftir að þeir ræddust við símleiðis í morgun hefðu oddvitar hinna flokkanna haft samband við Björn Inga og viljað ræða um samstarf og niðurstaðan orðið sú sem raun bæri vitni.

Vilhjálmur sagði, að síðasta vika hefði verið afar erfið en þeir erfiðleikar hefðu aðeins tengst erfiðleikum í Orkuveitu Reykjavíkur. Engin önnur alvarleg ágreiningsmál hefðu komið upp í þessu meirihlutasamstarfi og þvert á móti hefði ríkt eindrægni innan hópsins.

Vilhjálmur sagði, að ágreiningurinn nú hefði tengst áhættusömum rekstri, sem sjálfstæðismenn hefðu viljað fara varlega í en það væri sannfæring þeirra, að Orkuveita Reykjavíkur eigi ekki að vera í áhættusömum samkeppnisrekstri og ætti að losa sig sem fyrst út úr Reykjavik Energy Invest. Ágreiningurinn tengdist einnig gagnaveitunni, sem væri í samkeppni við ljósleiðarann. það hefði komið á óvart, hvað Björn Ingi vildi fylgja þessu ferli fast eftir þótt augljóst væri, að ekki væri stuðningur fyrir því innan orgarstjórnarmeirihlutans.

Bæði sár og reið
Gísli Margeinn Baldursson, borgarfulltrúi, sagði að innan þeirra raða væri sú skoðun uppi, að Björn Ingi hefði komið fram af miklum óheilindum. „Við erum bæði reið og sár yfir framgöngu hans," sagði Gísli Marteinn.

Hann sagði að samstarf flokkanna tveggja í borgarstjórn hefði gengið afar vel þar til kom að málefnum REI. Ástæðan, sem gefin var upp fyrir samstarfsslitunum væri ótrúverðug og allt tal um að það sé óeining í hópi sjálfstæðismanna væri fyrirsláttur. Því hlyti að búa eitthvað annað að baki þessum gerðum Björns Inga.

Aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku undir að spurningar hlytu að vakna um það hvaða hagsmuni Björn Ingi væri að verja. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði, að Björn Ingi hefði ekki þolað einn snúning og það hefði komið mjög á óvart af hve mikilli hörku hann rak mál REI.

Vilhjálmur sagði, að hann muni starfa áfram á vettvangi borgarstjórnar og veita nýjum meirihluta nauðsynlegt aðhald. Sagðist hann myndi fylgjast náið með því hvernig málefnasamsuða flokkanna fjögurra verði útfærð og hann hlakkaði til að takast á við þennan hóp.

Vilhjálmur sagði, að Svandís Svavarsdóttir hefði á blaðamannafundi síðdegis talað um að handaband dygði til að innsigla samstarfið. „Það dugði ekki handaband hjá okkur þegar við ætluðum að halda meirihlutanum áfram í gærkvöldi," sagði Vilhjálmur og bætti við að þessi niðurstaða væri áfall og það væri áfall að lenda í svona samskiptum. „Ég hefði að minnsta kosti ekki hagað mér svona sjálfur," sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert