Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fráfarandi borgarstjóri, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins, að þeir Björn Ingi Hrafnsson hefðu verið að nálgast niðurstöðu í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest í gærkvöldi.
Vilhjálmur sagði, að engar viðræður hefðu farið fram af hálfu Sjálfstæðisflokksins um að mynda nýjan meirihluta með öðrum flokki en Framsóknarflokknum.
Þá sagði hann, að full eining hefði verið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins ef málefni Reykjavik Energy Invest væru undanskilin. Þá hefði samstarf meirihlutans verið frábært og gagnkvæmt traust hefði ríkt þar til í dag.
Vilhjálmur sagði að það hefði verð annasamur tími frá því hann tók við embætti borgarstjóra og hann hefði m.a. tekið á móti um 2000 manns í viðtalstímum.