Á félagsfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Borgarbyggð í gærkvöldi var samþykkt ályktun þar sem skorað er á Alþingi að fella nú þegar úr gildi heimild í fjárlögum til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Einnig er þar mótmælt hugmyndum um að breyta Orkuveitu Reykjavíkur í hlutafélag.
Í ályktuninni segir, að atburðarás undanfarinna daga hafi leitt í ljós að sala ríkisins á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja voru mistök. Það sé Borgfirðingum afar mikilvægt að ráða þeim náttúruauðlindum sem gera Borgarfjörð jafn fýsilegan búsetukost og raun ber vitni en Deildartunguhver og önnur hitaréttindi HAB í Borgarfirði verði ekki leiksoppar markaðsaflanna líkt og gerst hafi á Suðurnesjum.
Í ályktuninni er Svandísi Svavarsdóttur, borgarfulltrúa, þökkuð skelegg framganga við að verja hagsmuni eigenda Orkuveitu Reykjavíkur í atburðarás þar sem allar meginreglur lýðræðis og jafnræðis virðist hafa gleymst.