Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði á umhverfisþingi í dag, að þótt Íslendingar njóti þess að eiga og nýta endurnýjanlega orku losi þeir jafn mikið eða jafnvel meira af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið en meðalþjóð í Evrópu. Þessu þurfi að breyta.
„Við þurfum að finna leiðir til að minnka losun frá fiskiskipa- og bílaflotunum. Og við þrufum að velja vistvænni bíla, keyra minna, taka oftar strætó, ganga meira. Við eigum ekki að biðja um undanþágur, heldur leggja okkar af mörkum – vera í fararbroddi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og til fyrirmyndar í þeim efnum," sagði Þórunn.
Hún sagði, að á alþjóðavísu hefði hugmyndafræði náttúruverndar þróast og breyst á undanförnum áratugum. Upphafsmenn náttúruverndar vildu friða spildur af ósnortinni eða lítt snortinni náttúru, sem eins konar sýnishorn af veröld sem var. Hugsunin á bak við þessa safnahugmynd náttúruverndar sé góðra gjalda verð en hún hrökkvi skammt í heimi þar sem umsvif mannsins aukist dag frá degi og náttúran taki stórfelldum breytingum vegna þeirra.
„Náttúran er ekki bara eitthvert gamalt þing á tölvu- og tækniöld, heldur er hún enn sem fyrr undirstaða velferðar okkar á ótal sviðum, frá því að sjá okkur fyrir mat og margskyns hráefni til þess að veita næringu fyrir andann. Þjóðir sem umgangast náttúru lands síns af virðingu og varúð standa stórum betur en þær sem spilla henni með mengun og eyðingu búsvæða. Náttúruvernd og sjálfbær nýting auðlinda þarf því að fléttast inn í alla okkar hugsun og gerðir," sagði Þórunn.