Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík, segir að vel geti verið að menn hafi talað saman um hugsanlega myndun nýs meirihluta í borginni, eftir fund borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á mánudag. Engar viðræður hafi hins vegar farið fram á milli þeirra aðila sem hafi umboð til myndunar nýs meirihluta fyrr en í gær og að þeim fundi hafi lokið með þeirri niðurstöðu sem nú liggi fyrir.
Svandís sagði er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í dag að sér virtist sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi verið meðvitundarlaus í þessu máli og að framkoma hans bæði við samstarfsaðilann og borgarstjóra hafi í raun ráðið því að svo fór sem fór.
„Það var ljóst eftir fundinn á mánudag að sexmenningarnir voru staðráðnir í að þröngva sínum vilja í gegn án nokkurs tillits til borgarstjóra síns eða samstarfsaðilans og það hvernig þau skildu borgarstjóra eftir einan til að svara fyrir málið var hreinlega fyrir neðan allar hellur," segir hún. „Ég vil skrifa þetta á reynsluleysi. Ég held að þessi hópur hafi hreinlega ekki verið tilbúin til að taka við borginni.”