Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir að það komi ekki á óvart að Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarviðræðna Evrópusambandsins, meti það þannig að Króatía verði næsta aðildarríki ESB, það 28. í röðinni. Það blasi við og á fundi sem hún hafi átt með Rehn á dögunum hafi hann upplýst að viðræður við Króatíu hafi gengið vel og í sama streng hafi sendiherra Króatíu tekið á fundi með henni nýverið.
Rehn situr fyrir svörum um sameiningarviðræður við Króatíu og Tyrkland undanfarin tvö ár og eru svörin birt á heimasíðu sendinefndar ESB í Króatíu. Þar kemur hann lítillega inn á Ísland og segir meðal annars að Króatía verði 28. ríkið í ESB nema Ísland komi á óvart og sæki um aðild. Ef það gerist á sama tíma þá muni stafrófsröð ráða því hvort ríkið verði það 28. í röðinni.
Rehn er spurður áfram hvort það séu einhver merki um að Ísland sæki um aðild. Hann segist hafa hitt utanríkisráðherra og hún styðji aðild Íslands og það geri einnig tveir helstu stjórnmálaflokkarnir. Sá þriðji sé einnig að skoða málið. „Ég tel, þar sem ég á nokkra vini á Íslandi, að þeir myndu vilja taka upp evruna án þess að gerast aðildarríki," segir hann síðan.
Ingibjörg sagði að það þyrfti ekki að koma á óvart að Rehn hefði áhuga á að Ísland gerðist aðili að ESB, hann hefði marglýst því yfir og meðal annars sagt fyrir rúmu ári að aðildarviðræður við Ísland myndu ekki taka nema eitt ár. Á fundi sínum með Rehn hefði hún spurt hann hvort hann væri enn sömu skoðunar, en hann hefði talið að það myndi taka styttri tíma, jafnvel hálft ár.