Áhrifamenn í Framsókn hluthafar

Forustumenn í Sjálfstæðisflokknum, þ.á m. í borgarstjórnarflokknum, telja störf Björns Inga Hrafnssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og í stjórn Reykjavík Energy Invest (REI) hafa einkennst af því að verja hagsmuni fjárfesta tengda Framsóknarflokknum og vilja láta kanna eignarhlut framsóknarmanna í REI, að því er fram kemur í frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Björn Ingi Hrafnsson vísar í fréttinni þessum ásökunum alfarið á bug.

Fram kemur í fréttinni að eignarhaldsfélögin Landvar ehf. og Þeta ehf. eigi saman helmingshlut í VGK-Invest á móti verkfræðistofunni VGK-Hönnun og Rafhönnun, sem fari með um 5,75% hlut í Geysi Green Energy (GGE), en sá hlutur nemi um tveggja prósenta hlut í sameinuðu félagi GGE og REI. Verðmat á hlut VGK-Invest sé á bilinu 1,3-1,5 milljarðar króna.

Fram kemur einnig að Helgi S. Guðmundsson, fyrrverandi formaður fjármálanefndar Framsóknarflokksins og bankaráðs Seðlabanka Íslands, sé skráður stofnandi og forsvarsmaður Landvars ehf., sem fari með um 35% hlut í VGK-Invest.

Þá segir að Kristinn Hallgrímsson hæstaréttarlögmaður sé skráður eigandi Þeta ehf., sem á 15% í VGK-Invest. Haft er eftir honum í fréttinni að aðrir eigendur hlutarins séu lögmenn á lögmannsstofunni Fulltingi, en hann er einn fjögurra eigenda stofunnar. Kristinn segir í fréttinni að forsvarsmenn VGK-Hönnunar hafi boðið þeim að gerast hluthafar í VGK-Invest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka