Samfylkingin fundar nú í höfuðstöðvum sínum við Hallveigarstíg í Reykjavík vegna hins nýja meirihluta sem myndast hefur í borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn er þétt setinn og fullt út að dyrum. Dagur B. Eggertsson verðandi borgarstjóri steig í pontu og sagði m.a. að félagshyggjan væri aftur komin til valda í Reykjavík.
Dagur sagði hinn nýja meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hafa bundist trúnaðarsambandi um að halda auðlindunum í samfélagslegri eigu og koma aftur á stöðugleika í Reykjavíkurborg. Þá sagði hann það vera vilja hins nýja meirihluta að láta umrótið að undanförnu leiða til einhvers góðs. "Við erum að taka við borginni við sérstæðar aðstæður þar sem hlutirnir hafa gerst hratt," sagði hann. “Við ákváðum að þetta væri tækifæri sem vert væri að láta á reyna og þar sem það ríkir trúnaðartraust innan hópsins tókst okkur að klára þetta verkefni á undraverðum skömmum tíma.”
Dagur sagði jafnframt að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins yrði nú að leysa úr sínum innanbúðarmeinum og stíga skref sem engin flokkur eigi að þurfa að stíga nema í fyrstu blaðsíðu á menntaskólafrjálshyggjunni.
Félagsfundurinn í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík samþykkti síðan einróma að lýsa yfir fullum stuðningi sínum við borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og að styðja eindregið þær meginhugmyndir sem hinn nýi meirihluti hyggst starfa eftir.