Getur setið sem forseti borgarstjórnar

Margrét Sverrisdóttir.
Margrét Sverrisdóttir. mbl.is/Golli

Þótt Margrét K. Sverrisdóttir hafi ekki náð kjöri sem borgarfulltrúi í síðustu borgarstjórnarkosningum er hún fyllilega bær til þess að gegna starfi forseta borgarstjórnar, að sögn Gunnars Eydal, skrifstofustjóra borgarstjórnar. Ástæðan er sú að þegar hún tók sæti Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa sem varaborgarfulltrúi öðlaðist hún öll réttindi og skyldur borgarfulltrúa og heldur þeim þar til Ólafur snýr aftur til starfa.

Margrét K. Sverrisdóttir var í 2. sæti á lista Frjálslyndra og óháðra í borgarstjórnarkosningunum vorið 2006. Hún, líkt og Ólafur F. Magnússon og fleiri sem buðu sig fram undir merkjum Frjálslyndra og óháðra, sagði síðar skilið við Frjálslynda flokkinn. Þetta hefur þó í sjálfu sér engin áhrif á stöðu þeirra í borgarstjórn, því líkt og alþingismenn eru borgarfulltrúar einungis bundnir af lögum og sannfæringu sinni í sínum störfum.

Ólafur hefur verið í leyfi vegna veikinda samfellt frá því í febrúar á þessu ár og hefur Margrét setið sem borgarfulltrúi í hans stað síðan. Að sögn Gunnars Eydal skiptir í raun ekki máli hvort varaborgarfulltrúi situr um skemmri eða lengri tíma sem aðalmaður í borgarstjórn, um leið og fulltrúinn tekur sæti í borgarstjórn er hann fullgildur borgarfulltrúi.

Snúi Ólafur aftur til starfa í borgarstjórn þarf annaðhvort að kjósa nýjan forseta, því varaborgarfulltrúi getur ekki gegnt því embætti, eða að annar hvor varaforseti borgarstjórnar taki sæti hans. Varaforsetar fráfarandi borgarstjórnar eru þeir Björn Ingi Hrafnsson og Júlíus Vífill Ingvarsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert