„Eru einhver vandkvæði tengd því að vísindamenn tjái sig um náttúruverndarmál?" spurði Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor við Háskóla Íslands á Umhverfisþingi umhverfisráðuneytis á málstofu þar sem varpað var ljósi á náttúru Íslands út frá nokkrum völdum sjónarhornum.
Þóra Ellen svaraði eigin spurningu og sagði að vísindamenn sem stundi rannsóknir á opinberum stofnunum eða fyrir opinbert fé hafi skyldur gagnvart almenningi og til að tjá sig í umboði þeirrar þekkingar sem þeir sjálfir búa yfir en ekki aðrir.
„Nýting náttúruauðlinda snertir efnahag, lífsgæði og tilfinningar almennings og hópa og er því líkleg til að valda árekstrum, " sagði hún og að það væri skylda vísindamanna að upplýsa allar hliðar máls sem kunnar eru til að stjórnvöld geti tekið ákvarðanir af þekkingu og yfirsýn.
„Það dregur úr líkum á röngum ákvörðunum en röng ákvörðun getur komið í veg fyrir aðrar farsælar ákvarðanir," sagði hún.
Þóra Ellen sagði að vísindamenn ættu ekki að þurfa að vega starfsframa sinn, mannorð eða hagsmuni sinnar stofnunar gagnvart ákvörðun um að tjá sig opinberlega.
Hún benti á aðstaðan sé stundum mjög ójöfn: oft stendur vísindamaðurinn einn gagnvart stofnunum sem hafa aðgang að auglýsingafólki, almannatengslafulltrúum og lögfræðingum. Hún benti einnig á að t.d. lífríkið í Þjórsárverum væri ekki með auglýsingastofu, almannatengla eða lögfræðinga á sínum snærum.
Of oft eru flókin mál og hugtök tengd umhverfisvernd ekki kynnt með réttum hætti að mati Þóru Ellenar. „Nú virðist vera í gangi áróður sem fluttur er erlendis þar sem íslensk orka er falboðin sem vistvæn, sjálfbær og endurnýjanleg en gangi sala eftir krefst hún nýtingar á næstum öllum okkar vatnsafla- og jarðvarma orkulindum," sagði Þóra Ellen og telur boðskapinn ekki fluttan undir réttum formerkjum. „Virkjanir í jökulsám sem byggjast á uppistöðulónum sem fyllast af aur á skömmum tíma - nokkrum áratugum eða fáum öldum - eru hins vegar ekki dæmi um endurnýjanlega eða sjálfbæra orkunýtingu. Sé litið til þeirra víðtæku og að miklu leyti óafturkræfu umhverfisáhrifa sem margar þeirra hafa er heldur ekki hægt að kalla þær vistvænar," sagði hún.