Tók gjald fyrir eftirlit með aflífuðum hundum

Umboðsmaður Alþingis rannsakaði úlfúð vegna aflífaðra hunda.
Umboðsmaður Alþingis rannsakaði úlfúð vegna aflífaðra hunda. mbl.is/Eggert

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að úrskurðarnefnd vegna hollustuhátta og mengunarvarna beri að rannsaka sérstaklega aflífun tveggja hunda og gjaldtöku vegna þeirra. Hafði heilbrigðiseftirlitið talið að eiganda hundanna bæri að greiða eftirlitsgjald vegna hundanna þótt þeir hefðu verið aflífaðir.

Aðdragandi málsins er að hundarnir voru aflífaðir í mars 2005. Taldi heilbrigðiseftirlitið hins vegar að tilkynning vegna þessa hefði ekki borist fyrr en í október 2006. Gerði það því kröfu vegna árlegs eftirlitsgjalds til eiganda hundanna, en það er 9.600 krónur á hund, fram til október 2006. Eigandinn taldi sig hins vegar hafa tilkynnt um aflífun hundanna símleiðis og með tölvupósti árið 2005.

Heilbrigðiseftirlitið kannaðist hins vegar ekki við þetta og taldi það engu skipta þótt dýralæknir vottaði um aflífunina. Greiða þyrfti fyrir eftirlit sem haft hefði verið með hinum aflífuðu hundum. „Það er ekki verið að rengja þig. Málið snýst um kostnaðinn og vinnuna sem framkvæmd hefur verið,“ sagði m.a. í svari eftirlitsins til fv. eiganda hundanna.

Ýmsu ósvarað í málinu
Hann brást við með því að kæra gjaldtökuna til sérstakrar úrskurðarnefndar sem starfar á grunni laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hún taldi hins vegar að málið heyrði ekki undir starfssvið sitt þar sem það snerist um sönnun á atburðum og væri því ekki í hennar verkahring.

Umboðsmaður Alþingis taldi hins vegar ýmislegt í málinu sem úrskurðarnefndin hefði mátt skoða frekar. T.d. þyrfti að svara þeirri spurningu hvort heimild til gjaldtöku væri enn til staðar ef sýnt væri fram á að hundarnir væru aflífaðir og hvernig tilkynningu um það atriði hefði verið háttað. Benti umboðsmaður á að væri stjórnvöldum almennt heimilt að neita að taka mál til efnismeðferðar og taka í þeim ákvarðanir vegna óljósra málsatvika þá gætu lægra sett stjórnvöld og aðrir aðilar sífellt komið í veg fyrir umfjöllun úrskurðaraðila með því einu að mótmæla staðhæfingum aðila.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert