Sigurður Gizurarson hrl., skiptastjóri þrotabús Frjálsrar fjölmiðlunar, úthlutaði sér 106 milljónum króna í skiptalaun, við takmarkaða hrifningu þeirra sem áttu kröfur í búið.
Frjáls fjölmiðlun fór á höfuðið með hvelli fyrir fimm árum og námu kröfurnar í búið 2,2 milljörðum. Skömmu síðar var Sigurður skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Í sumar lauk loks skiptunum og til úthlutunar var 331 milljón króna. Áður en að úthlutun til kröfuhafa kom hafði skiptastjórinn þó úthlutað sjálfum sér 106 milljónum króna í skiptalaun.
Helgi Sigurðsson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings, staðfestir að bankinn hefur falið Ragnari Hall hrl. að skoða málið fyrir hönd hans, enda segir Helgi ekki ástæðu til annars þegar um sé að ræða jafnháar fjárhæðir og í þessu tilfelli.
Sigurður var staddur erlendis þegar 24 stundir náðu af honum tali í gær. Hann sagði það fjarri lagi að 106 milljónir hefðu fallið honum í skaut, hann hefði ekki fengið nema brot þeirrar upphæðar. Hann sagði að m.a. hefði stór hluti upphæðarinnar runnið til yfirverktakans, Laga og réttar. Nánari eftirgrennslan leiddi þó í ljós, að fyrirtækið Lög og réttur hefur sama lögheimili og Sigurður sjálfur.