Víðtækar skyldur Orkuveitunnar við REI í 20 ár

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur skuldbundið sig til að veita einungis Reykjavík Energy Invest (REI) sérfræðiþjónustu á vettvangi jarðhita, rannsókna, ýmiss konar áætlanagerðar og markaðsmála. Er þetta meðal þeirra skyldna sem falla á OR samkvæmt þjónustusamningi við REI, sem undirritaður var 3. október síðastliðinn.

Samningurinn er til 20 ára og felur í sér ýmiss konar skyldur fyrir OR gagnvart REI. Fær REI m.a. forgangsrétt að öllum erlendum verkefnum sem kunna að falla í skaut Orkuveitunnar á samningstímanum. Leiti einhverjir aðilar til OR varðandi möguleika á hagnýtingu jarðhita til orkuvinnslu, annars staðar en á Íslandi, ber Orkuveitunni að vísa slíkum fyrirspurnum til REI sem síðan hefur 60 daga forgangsrétt til að semja við viðkomandi aðila.

Fá aðgang að gögnum OR

Í samningnum kemur einnig fram að OR skuldbindi sig til að hafa sérfræðinga sína tiltæka á grundvelli ársfjórðungslegra áætlana sem REI láti OR í té. Geri REI breytingar á slíkum áætlunum eru þær bindandi fyrir OR. Einnig kveður samningurinn á um að REI skuli fá þau markaðsgögn sem til eru hjá OR og jafnframt fái REI beinan aðgang að öllum gögnum "um þekkingu", sem og upplýsingum á tölvutæku formi, sem tiltæk eru á hverjum tíma.

Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, segir að þjónustusamningurinn sé grundvöllurinn að því 10 milljarða verðmati sem lagt var á svokallaðar óefnislegar eignir sem fyrirtækið lagði inn við sameiningu REI og Geysis Green Energy. Hið nýja félag fær einnig heitið Reykjavík Energy sem OR hefur notað á erlendum vettvangi. Alls lagði OR til 23 milljarða í hið sameinaða félag. Mun OR fái fullt endurgjald fyrir vinnu starfsmanna fyrirtækisins. 5. kafli samningsins er birtur í heild í Morgunblaðinu í dag.

Í hnotskurn
» Samningurinn var undirritaður 3. október af Hjörleifi Kvaran, forstjóra OR og Guðmundi Þóroddssyni, forstjóra REI.
» Markmið samningsins er að veita REI einkarétt á ýmiss konar þjónustu OR á vettvangi orkuvinnslu úr jarðvarma erlendis.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert