Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur skuldbundið sig til að veita einungis Reykjavík Energy Invest (REI) sérfræðiþjónustu á vettvangi jarðhita, rannsókna, ýmiss konar áætlanagerðar og markaðsmála. Er þetta meðal þeirra skyldna sem falla á OR samkvæmt þjónustusamningi við REI, sem undirritaður var 3. október síðastliðinn.
Samningurinn er til 20 ára og felur í sér ýmiss konar skyldur fyrir OR gagnvart REI. Fær REI m.a. forgangsrétt að öllum erlendum verkefnum sem kunna að falla í skaut Orkuveitunnar á samningstímanum. Leiti einhverjir aðilar til OR varðandi möguleika á hagnýtingu jarðhita til orkuvinnslu, annars staðar en á Íslandi, ber Orkuveitunni að vísa slíkum fyrirspurnum til REI sem síðan hefur 60 daga forgangsrétt til að semja við viðkomandi aðila.
Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, segir að þjónustusamningurinn sé grundvöllurinn að því 10 milljarða verðmati sem lagt var á svokallaðar óefnislegar eignir sem fyrirtækið lagði inn við sameiningu REI og Geysis Green Energy. Hið nýja félag fær einnig heitið Reykjavík Energy sem OR hefur notað á erlendum vettvangi. Alls lagði OR til 23 milljarða í hið sameinaða félag. Mun OR fái fullt endurgjald fyrir vinnu starfsmanna fyrirtækisins. 5. kafli samningsins er birtur í heild í Morgunblaðinu í dag.