Á síðasta meirihlutafundi fráfarandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur lagði Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, fram minnisblað, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins litu á sem úrslitakosti af hans hálfu fyrir áframhaldandi samstarfi. Þeir litu svo á, að í hugmyndum Björns Inga fælist ekkert annað en að haldið yrði áfram óbreyttri stefnu í málefnum Orkuveitunnar og því væru þær ekki aðgengilegar af þeirra hálfu.
Morgunblaðið hefur þetta blað undir höndum og er texti þess á þennan veg:
- REI er eðlilegt framhald á útrásarverkefnum Orkuveitu Reykjavíkur. Ákveðið að styðja við bakið á því. Bjarni Ármannsson verði áfram stjórnarformaður, aðrir fulltrúar OR innan stjórnar verði ekki stjórnmálamenn, en tenging við stjórn OR verði tryggð.
- Ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að vera einn af lykileigendum slíks fyrirtækis til lengri framtíðar, þar sem slíkt krefðist aukins áhættufjármagns og þátttöku í aukningu hlutafjár. Hlutverkið fremur að gera verðmæti úr þeirri þekkingu og reynslu sem OR og starfsfólk hennar býr yfir.
- Ákveðið að í kjölfar skráningar félagsins verði stærstur hluti hlutabréfanna seldur, enda hafi þá gefist kostur á að auka virði þess til hagsbóta fyrir eigendur. Annaðhvort verði borgarbúum gefinn kostur á að taka þátt, eða þeir njóti þess með beinum hætti.
- Verði eigendafundur af einhverjum ástæðum dæmdur ólögmætur verði boðað til hans aftur og þá muni fulltrúar Reykjavíkur styðja samrunann aftur í samræmi við fyrri stefnumótun.
- Upplýsingagjöf vegna fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar og/eða dótturfyrirtækja þeirra verði efld og haldnir reglulegir kynningarfundir með kjörnum fulltrúum.
- Fulltrúar Reykjavíkur bera fullt traust til starfsmanna Orkuveitunnar og dótturfyrirtækja hennar.