Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson segir að orðalag hafi verið misvísandi í tillögu á eigendafundi, þar sem hafi staðið að Orkuveita Reykjavíkur samþykkti fyrirliggjandi samning við Reykjavík Energy Invest hf. „um aðgang að tækniþjónustu o.fl." og að forstjóra yrði veitt heimild til undirritunar hans.
„Samningurinn sem lá þar til grundvallar var ekki ræddur á fundinum og er mun víðtækari en orðalagið gefur til kynna. Ég held að ekki hafi margir stjórnarmenn gert sér grein fyrir að þetta væri einkaréttarsamningur til tuttugu ára sem útilokaði í raun og veru Orkuveituna frá því að veita öðrum fyrirtækjum sérfræðiaðstoð á erlendri grundu án þess að fara í gegnum REI. Það er ekki í tillögunni að um sé að ræða einkaréttarsamning."
_Hefði það breytt einhverju?
„Ég hugsa að menn hefðu velt þessu vandlega fyrir sér. Fullyrt er að þetta sé ekki einsdæmi hér á landi. En það má deila um hvort rétt sé að gera þetta svona. Og það gafst engum tækifæri til að taka afstöðu til þess. Það var bara talað um aðgang að tækniþjónustu í þeim tillögum sem lágu fyrir fundinum, en ekki einkarétt á aðgangi að „Svæðinu", sem er heimurinn utan Íslands! Orkuveitan er bundin af þessu í tuttugu ár og það má velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt."
Vilhjálmur segir um hraða atburðarásarinnar að það hefði örugglega verið hægt að standa að málum með betri og skilvirkari hætti. „Málið var unnið í samstarfi REI, Orkuveitunnar og Geysis Green Energy. Ef til vill var erfitt að vera með undirbúning málsins á opinberum vettvangi. Það getur verið viðkvæmt þegar í hlut á fyrirtæki í Kauphöllinni. Ég hef heyrt eftir á að þetta kunni að hafa tengst fundi sem FL Group var með í London. Mér var ekki kunnugt um það á neinu stigi að hraðinn hefði miðast við það. Kannski væri rétt að spyrja Bjarna Ármannsson að því. Það kom aldrei til umræðu."
Aðspurður hvort hugmyndir hafi komið fram um kauprétt til stjórnarmanna segir Vilhjálmur: „Björn Ingi ræddi það við mig hvort stjórnarmenn í Orkuveitunni og í REI, utan Bjarna Ármannssonar, ættu að fá að kaupa hlutafé. Hann setti ekki fram neinar tillögur um það. En mér fannst það að sjálfsögðu ekki koma til greina."
Hvað varðar fund sem forysta flokksins hélt með borgarstjórnarflokknum án Vilhjálms segir hann: „Það kom mér mjög á óvart. Og ég tel að það sé umhugsunarefni hvort hún hefði átt að gera það með þessum hætti. Þetta gaf tilefni til margskonar vangaveltna."