Glerkápan sem þekja mun hæsta hús landsins verður alls um ellefu þúsund fermetrar, en húsið, sem nú er risið við Smáratorg í Kópavogi, er 78 metra hátt. Hér eiga að verða skrifstofur og verslanir, auk þjónusturýmis fyrir aðra starfsemi við Smáratorg.
Það fer svolítið eftir því hvernig talið er hvort Smáraturninn er tuttugu hæðir eða jafnvel 24. En þegar komið er upp á þak mun það samsvara því að maður sé uppi á 24 hæða húsi.
Hallgrímskirkjuturn átti titilinn hæsta hús landsins, en hann er 74,5 metrar, þannig að Smáraturninn, sem er 77,9 metrar, er rúmlega þrem metrum hærri. Grand Hótel í Reykjavík er 65 metrar, og turn sem á að rísa við Höfðatorg verður 70 metrar.
Turninn við Smáratorg mun ásamt fleiri háhýsum sem eru að rísa breyta landslagi höfuðborgarsvæðisins mikið, og ef marka má könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrr á árinu eru flestir borgarbúar ánægðir með þennan háhýsavöxt í borginni.
Tveir af hverjum þremur töldu að háhýsi ættu rétt á sér í borgarskipulagi. Reyndar voru fleiri karlar en konur hlynntir háhýsum, og einnig virðast þau falla yngra fólki betur í geð.