Rétt fyrir klukkan átta í morgun varð bílvelta á Hellisheiði þegar jepplingur, sem ók í austurátt, fór út af veginum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi fór bifreiðin margar veltur. Ökumaðurinn, sem var erlendur ferðamaður, missti stjórn á ökutækinu í hálku með fyrrgreindum afleiðingum.
Einn farþegi var í bifreiðinni auk ökumanns. Bifreiðin er gjörónýt og þykir mikil mildi að ökumaður og farþegi hafi sloppið með minniháttar meiðsl en þeir voru fluttir með sjúkrabíl á slysadeild í Fossvogi.