Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði eftir fund helstu eigenda Hitaveitu Suðurnesja í morgun að ákveðið hefði verið á fundinum að annar fundur þessara aðila verði haldinn um miðjan nóvember og að engar stórar ákvarðanir verði teknar fyrir þann tíma.
„Fundurinn var haldinn að okkar beiðni til að forsvarsmenn fyrirtækisins gætu skýrt fyrir okkur á hvaða ferð þeir væru,” sagði Árni er blaðamaður mbl.is ræddi við hann eftir fundinn. Þá sagði hann Bjarna Ármannsson, stjórnaformann Reykjavík Energy Invest, einnig hafa setið fundinn og að það hefði verið meginniðurstaða fundarins að þörf væri á skýrari reglum frá löggjafanum varðandi eignarhald auðlinda.
„Við viljum tryggja hag Hitaveitu Suðurnesja sem bestan en það er margt óljóst eftir atburði undandfarinna daga. Við munum því bíða og sjá í hvaða farveg öll þessi mál fara bæði fyrir dómstólum og innan Orkuveitu Reykjavíkur,” sagði hann. „Það liggur í raun ekkert á enda er greinilega margt óljóst að hálfu Orkuveitu Reykjavíkur eins og stendur.”
Árni sagði fyrr í morgun að áform um að leggja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja inn í Reykjavík Energy Invest stríði gegn hluthafasamkomulagi fjögurra stærstu hluthafanna í Hitaveitu Suðurnesja. Það sama eigi við um áform um að Orkuveitan eignist hlut Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitu Suðurnesja og ráðstafi honum á sama hátt.