Fjármálaeftirlitið gerir athugasemdir við stofnun eignarhaldsfélags

Fjármálaeftirlitið hefur gert athugasemdir við það að stofnað var sérstakt eignarhaldsfélag sem kaupir öll hlutabréf í Reykjavík Energy Invest fyrir hönd starfsmanna orkuveitu Reykjavíkur. Það þýðir í raun að aðeins einn hlutahafi er skráður sem eigandi bréfanna í stað 570. Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins að Fjármálaeftirlitið vilji fá upplýsingar um kaupréttarsamninga starfsmanna Orkuveitunnar og að grunur leiki á að farið hafi verið á svig við lög og reglur um verðbréfaviðskipti.

570 starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur skráðu sig fyrir kaupum á 170 milljóna króna hlut í Reykjavík Energy Invest í síðustu viku. En hver starfsmaður hefur heimild til að kaupa fyrir 300 þúsund krónur á genginu 1,28.

Samkvæmt lögum og reglum um verðbréfaviðskipti verður að leggja fram nákvæma útboðslýsingu þegar fleiri en 100 kaupa bréf í óskráðu félagi en það hefur ekki verið gert varðandi REI. Haft var eftir Hjörleifi B. Kvaran forstjóra Orkuveitunnar í Fréttablaðinu í síðustu viku að lögfræðingar Orkuveitunnar hefðu farið yfir málið og að þeir teldu ekki þörf á útboðslýsingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert