Áslaug Traustadóttir grunnskólakennari í Rimaskóla hlaut Fjöregg MNÍ 2007 fyrir að auka áhuga ungs fólks á matargerð, með nýstárlegum aðferðum.
Áslaug hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir að hafa komið meðal annars af stað kokkakeppni í Rimaskóla og nú síðast var haldin kokkakeppni grunnskóla Reykjavíkur að hennar frumkvæði . Fjöregg MNÍ eru verðlaun sem veitt eru fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði. Félaginu barst fjöldi ábendinga um verðuga verðlaunahafa í ár, samkvæmt fréttatilkynningu.
Þær ábendingar sem dómnefnd valdi að tilnefna til verðlaunanna að þessu sinni voru auk Áslaugar Traustadóttur: Ávaxtabíllinn, Fylgifiskar, Móðir náttúra og MS fyrir Stoðmjólk.
Áslaug hefur lokið B.A prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og með kennararéttindi frá Kennaraháskóla Íslands. Hún byrjaði að kenna heimilisfræði í Rimaskóla haustið 1999. Áhugi nemenda í Rimaskóla á heimilisfræði hefur stóraukist eftir að Áslaug hóf þar störf. Árið 1999 voru 10 nemendur með heimilisfræði sem val en núna í vetur eru 80-100 nemendur með þessa grein sem val. Markmið kokkakeppninnar að mati Áslaugar er meðal annars að styrkja sjálfsmynd nemenda og auka færni þeirra í sjálfstæðum vinnubrögðum og með því auka trú þeirra á eigin getu og mætti við meðferð hráefnis svo úr megi verða veislukostur og heilbrigður heimilismatur.