Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var harðorður í ræðu sinni í utandagskrárumræðum um fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferjunnar á Alþingi í dag. „Ætlar enginn að viðurkenna ábyrgð sína í þessu máli?", spurði Birkir og sagði ríkisstjórn og Alþingi hafa verið leynd mjög mikilvægum gögnum í málinu. Samkvæmt minnisblaði hafi kostnaður verið áætlaður 250 milljónir en síðan verið kynntur sem 150 milljónir.
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, var til andsvara og sagðist hafa farið yfir málið með Ríkisendurskoðanda án milligöngu fjölmiðla. Árni sagði jafnframt mikilvægt að læra af mistökum sem hafi verið gerð og horfa fram á við. Árni taldi þó undarlegt að Birkir Jón skyldi vera málshefjandi því hann hefði getað gripið inn í málið sem formaður fjárlaganefndar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2007.
Þá sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður samgöngunefndar, að skortur á undirbúningi og vond áætlanagerð auk þess að eftirlit hafi brugðist hafi verið ástæða þess að svo fór sem fór. Þá tók hún fram að samgöngunefnd hefði aldrei komið með beinum hætti að málinu. Hún tók svo undir orð fjármálaráðherra og hvatti til þess að lært yrði af mistökunum.