Breytingar á úthlutunarreglum skila árangri

Breytingar á úthlutun tollkvóta hefur skilað góðum árangri samkvæmt tilkynningu frá landbúnaðarráðuneytinu. Segir að í síðustu viku hafi sjö tilboð borist í útboði á tollkvóta og ljóst sé að þar hafi fyrirtæki vandað betur til verksins en áður.

Við úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ESB löndunum sl. vor kom í ljós að nokkur brögð voru að því að fyrirtæki biðu háar upphæðir í tollkvótann en stæðu síðan ekki við tilboð sín þegar til átti að taka. Þannig bauð t.d. eitt fyrirtæki 207 m.kr. en innleysti ekki kvótann. Leiddi þetta til þess að neytendur fengu ekki að fullu notið aukins vöruúrvals né hagstæðari viðskiptakjara eins og að var stefnt með útboðinu. Þetta kom sér einnig illa fyrir þau fyrirtæki sem þurftu á tollkvótanum að halda en gátu ekki flutt landbúnaðarvörur inn á lægri gjöldum þar sem kvótinn var "blokkaður" af þeim sem hæst buðu, samkvæmt tilkynningu. Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra breytti fyrirkomulagi útboðsins á þann veg, að til þess að tilboð teljist gilt skuli fylgja því ábyrgðaryfirlýsing banka, sparisjóðs eða vátryggingafélags, þar sem fram kemur að viðkomandi ábyrgðarveitandi tryggi að tilboðsgjafi geti staðið við tilboð sitt. Þá þarf tilboðsgjafi sá er hæst býður að leysa til sín úthlutaðan tollkvóta með greiðslu andvirðis hans innan sjö daga frá dagsetningu tilkynningar um niðurstöðu útboðs. Hafi tilboðsgjafi ekki leyst til sín tollkvótann innan þessa tímafrests, er landbúnaðarráðherra heimilt að bjóða næstbjóðanda óinnleystan tollkvóta.

Í lok síðustu viku fór fram endurúthlutun á ESB tollkvótanum og var sú úthlutun gerð á grundvelli þessara nýju reglna. Niðurstaðan var sú að nítján tilboð bárust í tollkvótann, þar af voru sjö fyrirtæki sem ekki uppfylltu útboðsreglur varðandi ábyrgðaryfirlýsingu banka, sparisjóðs eða vátryggingafélags. Í útboðinu kom greinilega í ljós að fyrirtækin vönduðu sig betur og voru tilboðin einnig umtalsvert lægri en hafði verið í fyrri útboðum. Heildarfjárhæð útboðsins nam 144 m.kr.

Þau tilboð sem nú bárust voru allt að 66% lægri nú en í vor og ætti það að skila sér í lægra verði til neytenda á þessum innfluttu vörum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert