Hanna Birna upplýsti um hvers vegna borgarstjórnarsamstarfið brast

Gísli Marteinn, Vilhjálmur og Hanna Birna
Gísli Marteinn, Vilhjálmur og Hanna Birna

Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði á borgarstjórnarfundi sem nú stendur yfir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi verið óánægðir með vinnubrögð Vilhjálms í málum REI og þau hafi sagt honum það og náð sátt í málinu. Hins vegar hafi Björn Ingi Hrafnsson afhent borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins minnismiða í sex liðum þar sem þeim var meðal annars gert að afgreiða REI málið eins í stjórn OR aftur þrátt fyrir að fundurinn yrði dæmdur ógildur sem nú er fyrir héraðsdómi. Segir Hanna Birna að það sé rangt að samstarfið hafi brugðist vegna ósættis meðal sjálfstæðismanna og það viti Björn Ingi jafnvel og hún.

Hanna Birna sagði að hún telji að allir kjörnir fulltrúar í stjórn Orkuveitunnar hafi tekið ranga ákvörðun og ekki brugðist rétt við. Þar skipti einu hvort um fulltrúa fyrrverandi meirihlutans sé að ræða eða núverandi meirihluta. Hún sagði Svandísi hafa þar sérstöðu þar sem hún hafi setið hjá.

Segir hún að það meirihlutasamstarf sem staðið hafi í 16 mánuði hafi að mörgu leyti verið gott og til lykta leidd stórmál og oft tekist á. Segir hún það hluta af því að taka þátt í stjórnmálum að menn takist á og eru reiðubúnir að takast á og fara í þá vegferð að hafa mismunandi skoðanir. Sagðist Hanna Birna oft hafa tekist á við Björn Inga.

Rifjaði Hanna Birna upp að þann 2. október hafi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrst fengið kynningu á sameiningu REI og GGE en þau hafi aldrei heyrt af því fyrr. Segir Hanna Birna að kynningin hafi verið yfirborðskennd og flýtirinn slíkur að þau fengu engan tíma til að skoða málið ofan í kjölinn. Segir hún að þau hafi lagt fram margar spurningar sem ekki var svarað en hins vegar tilkynnt það daginn eftir að málið væri afgreitt og þau stæðu frammi fyrir orðnum hlut.

Að sögn Hönnu Birnu verða kjósendur í Reykjavík að eiga það við sína samvisku að þeir standi frammi fyrir orðnum hlut og það í máli þar sem engar smá ákvarðanir eru teknar. Segir hún þær sennilega vera þær stærstu sem hún ætti eftir að standa frammi fyrir sem borgarfulltrúi.

Hanna Birna segir að bæði Björn Ingi og Vilhjálmur hafi setið þennan fund og þar hafi Björn Ingi ekki svarað neinum þeim spurningum sem lagðar voru fram. Í kjölfarið hafi borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins farið yfir það mál með sínum leiðtoga og og hann beðið þau afsökunar, það er þau hafi leyst sín mál innbyrðis. Segist Hanna Birna vona það fyrir aðra flokka í borgarstjórn að þeim verði leyft að eiga málin við sinn oddvita áður en samstarfsaðilinn slítur samstarfinu líkt og Björn Ingi gerði.

Að sögn Hönnu Birnu voru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ósáttir við það að fulltrúum þeirra í stjórn Orkuveitu hafði aldrei verið kynnt hvernig staðið yrði að málum og segir Hanna Birna að Björn Ingi vitað þetta jafn vel og hún en hafi átt marga fundi þar sem hún óskaði efitr því við hann að umræður yrðu um málið. Vorum búin að margræða málið og síðan kemur það Birni Inga það á óvart að við séum ekki öll sammála innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, sagði Hanna Birna á fundi borgarstjórnar í dag.

Hún segir það engin tíðindi að tekist sé á innan hópsins og það sé eðlilegt að takast á. „Við tókumst á og það varð nóg til þess að hann ákvað að fara annað," sagði Hanna Birna og bætti við að það hafi ekki alltaf verið auðveld samtöl en þau hafi unnið úr sínum málum. Borgarstjóri viðurkenndi að hann hefði gengið of langt og við vorum búin að ná fullri sátt í okkar hópi, sagði Hanna Birna og að þau innan Sjálfstæðisflokksins hafi verið af fullum heilindum í þessu samstarfi og þau hafi viljað halda því áfram.

Hanna Birna sagðist ekki hafa haft neinar upplýsingar um 20 ára samninginn og að hún hafi fyrst frétt af honum í í fjölmiðlum fyrir þremur dögum. Sagðist hún ekki skilja í þeirri ósk Björns Inga að þau myndu lýsa yfir fullu trausti við þessa menn sem sátu með kaupréttarsamninga í vasanum. Hanna Birna spurði hvernig í ósköpunum hún hafi átt að sætta sig við það. Það eina ranga sem borgarfulltrúar sjálfstæðismanna gerðu var að deila málinu með Birni Inga það var eini glæpur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessu máli, að sögn Hönnu Birnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert