Kennir erlendu starfsfólki íslensku

Gullveig Sæmundsdóttir, fyrrverandi ritstjóri, kennir um þessar mundir erlendum starfsmönnum Garðabæjar íslensku. Ekki er vanþörf á enda fjölgar erlendu starfsfólki bæjarins stöðugt og nauðsynlegt að aðstoða það við að ná tökum á málinu og aðlagast samfélaginu. Nemendur Gullveigar eru einkum starfsmenn grunnskóla og leikskóla bæjarins, alls 26 manns frá 16 ólíkum þjóðlöndum.

"Þar sem fólk kemur frá svona mörgum löndum er ekki um neitt annað að ræða en að tala íslensku. Maður skyldi halda að flestir gætu bjargað sér á ensku en það gera fæstir í þessum hópi," segir Gullveig. Verkefnið sem Gullveig styðst við er unnið af starfsmönnum Alþjóðahúss og er sambland af íslenskukennslu og fræðslu um íslenska menningu og þjóðfélag.

Það sem gerir kennsluna sérstaka er að nemendur fá frí frá vinnu til að sækja tíma sem Gullveig segir að sé mjög dýrmætt. "Þau koma til mín á morgnana, fá sér kaffi og klukkutíma kennslustund áður en þau fara að vinna. Það er mjög jákvætt," segir Gullveig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert