Sigurður Gizurarson hrl. segir það fjarstæðu að hann hafi úthlutað sjálfum sér 106 milljónir vegna skipta þrotabús Frjálsrar fjölmiðlunar eins og greint var frá í 24 stundum um síðustu helgi. Kaupþing banki hefur falið Ragnari H. Hall hrl. að skoða málið.
Í bréfi sem Sigurður hefur sent blaðinu segir að allur kostnaður þrotabúsins, þ.m.t. laun hans sem skiptastjóra, myndi þessar 106 milljónir, en hann segir skiptin hafa verið sitt aðalstarf um margra ára skeið. Jafnframt hafi þrotabúið rekið sérstaka skrifstofu þar sem starfað hafi starfsmaður sem sá um daglega afgreiðslu. Einnig þurfti að greiða útlagðan kostnað, t.d. málskostnað sem þrotabúið þurfti að greiða í dómsmálum og þóknanir sérfræðinga. Síðast en ekki síst kemur til málflutningskostnaður lögfræðiskrifstofunnar Laga & réttar ehf., en sú lögfræðiskrifstofa er í eigu Sigurðar eins og 24 stundir hafa greint frá.
Sigurður segir allt þetta mál runnið undan rifjum Ragnars H. Hall sem sé þó ekki kröfuhafi í búið.