Mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna og aðila í einkarekstri nú er að efla traust og trúnað milli opinberra aðila og einkaaðila hvað varðar þær breytingar sem eru að eiga sér stað á íslenskum raforkumarkaði. Í því tilliti sé mikilvægt að markalínur milli opinbers reksturs og einkareksturs séu skýrar. Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir, formaður iðnaðarnefndar Alþingis á fundi Samtaka iðnaðarins í dag þar sem fjallað var um íslenskan raforkumarkað.
„Við getum staðið frammi fyrir mjög alvarlegu vantrausti almennings gagnvart miklum breytingum á þessum orkumarkaði. Og þá ekki síst ef við ætlum að fara að gera breytingar í átt að aukinni markaðsvæðingu,“ sagði Katrín. Hún bætti því við að menn gætu jafnframt staðið fyrir vantrausti almennings á því að samvinna milli opinberra aðila og einkaaðila gæti gengið yfir höfuð.
„En að því gefnu ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að sveitarfélög og ríkisvald eigi í samvinnu við markaðinn í að byggja upp alþjóðleg fyrirtæki í orkugeiranum, og að byggja saman upp skilvirkan orkumarkað á Íslandi,“ sagði Katrín
Hún telur að málefni Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavík Energy Invest (REI), geti haft varanleg neikvæð áhrif og að málið geti komið óorði á útrás orkugeirans, ef ekki tekst að ná samstöðu á ný um aðalatriði málsins.
Mikilvægt að halda áfram með breytingar á lagaumhverfinu
Að hennar mati er grunnhugmyndin að REI góð, þ.e. að í útrásinni í samkeppni á alþjóðagrundvelli komi saman reynsla, sem búi í opinberum fyrirtækjum, og einkafjármagnsins sem hefur þekkingu til þess að markaðssetja þessi verðmæti. Opinber fyrirtæki leggi því til mannafla og reynslu en einkageirinn fjármagnið og kunnáttu í alþjóðaviðskiptum. „Og allir hagnast, bæði almenningur og síðan þeir sem leggja til fjármagnið.“
Hún segir mikilvægt að haldið sé áfram við breytingar á því lagaumhverfi sem Íslendingar búa við á raforkumarkaði, líkt og núverandi iðnaðarráðherra hefur boðað. „Við búum að ákveðnu leiti í ákveðnum lagalegu tómarúmi,“ sagði hún en bætti því við að iðnaðarráðherra hafi lýst því yfir að hann muni hraða þeirri vinnunni við gerð lagafrumvarpsins sökum þess ástands sem hefur skapast á þessum vettvangi undanfarnar vikur.
Hún sagðist ekki geta skýrt frá því hvað muni koma fram í nýju frumvarpi ráðherra, en að hún gæti skýrt þá hugmyndafræði sem liggur þar að baki.
Í fyrsta lagi að eignarhald á yfirgnæfandi hluta auðlinda og réttinda verði áfram tryggt í meirihluta eign ríkis og sveitarfélaga.
Í öðru lagi að samkeppnis- og sérleyfirekstur verði aðskilinn.
Í þriðja lagi að sérleyfisreksturinn, þ.e. almannaveiturnar, verði í félagslegri meirihlutaeigu.