Í bókun sem Sjálfstæðismenn lögðu fram á borgarstjórnarfundi í dag kemur fram að þeim þyki það ótrúleg vinnubrögð hjá nýjum meirihluta, að neita að ræða stefnumál sín, þeirra á meðal málefni Orkuveitu Reykjavíkur, á fyrsta borgarstjórnarfundi nýs meirihluta.
„Fyrir utan stuttar kurteislegar ræður borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, við upphaf og endi umræðunnar, tók enginn borgarfulltrúa meirihlutans til máls í þessari mikilvægu umræðu. Þó var fjölda spurninga beint til borgarfulltrúa meirihlutans, en engum þeirra var svarað,” segir í bókuninni og síðan eru tíndar til þær spurningar sem Sjálfstæðismenn báru meðal annars fram:
· Styður Borgarstjórn Reykjavíkur samruna REI og Geysis Green Energy?
· Af hverju vill Svandís Svavarsdóttir ekki samþykkja tillögu hér í Borgarstjórn sem er samhljóða bókun þeirri sem hún lagði fram á eigendafundi í OR hinn 3. október 2007?
· Af hverju vill Svandís Svavarsdóttir ekki lýsa hug sínum til tillögunnar.
· Vissi Björn Ingi Hrafnsson ekki að samruni REI og GGE varðaði verulega fjárhagslega hagsmuni lykilmanna í Framsóknarflokknum.
· Vissi Björn Ingi Hrafnsson ekki hver ætti fyrirtækið Landvar, sem hagnast verulega á þessum samruna, en það er í eigu formanns fjáröflunarráðs framsóknarflokksins árum saman.
· Af hverju hefur Björn Ingi Hrafnsson ekki sagt frá fundum sem hann átti með lykilfjárfestum í aðdraganda málsins, þegar hann hefur sagst hafa lagt öll spilin á borðið?
· Hefur afstaða Samfylkingarinnar til málsins breyst eftir að samningurinn um 20 ára einkaréttarsamningurinn kom í ljós?
Bókunin endar á þessum orðum: „Það er heigulsháttur að þora ekki að ræða í borgarstjórn Reykjavíkur, mál sem hefur misboðið borgarbúum, og þeir vilja fá svör við.”