Segir hlutafélagavæðingu og fyrirtækjaaðskilnað skilyrði á raforkumarkaði

Friðrik Sophusson
Friðrik Sophusson mbl.is/Ásdís

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir hlutafélagavæðingu og fyrirtækjaaðskilnað vera algjört skilyrði á raforkumarkaði svo hægt sé að tala um gagnsæi og eðlilega samkeppni. Hann segir ný verkefni og aukin umsvif orkufyrirtækjanna kalla á nýtt eigið fé, annaðhvort frá núverandi eigendum eða nýjum eigendum. „Það getur kallast einkavæðing og þá verður bara að hafa það, og þá styð ég einkavæðingu því fyrirtækin verða að fá að vaxa,“ sagði Friðrik.

Hann segir einkavæðingu velta á vilja sveitarfélaganna og ríkisins. „Það getur vel verið að einhver ríkisstjórn komist til valda og segi: „Við komust til valda á þeim grunni að við ætlum að einkavæða eða ætlum að þjóðnýta orkulindirnar.“ Þá verður bara að fara fram eðlileg umræða um það í þjóðfélaginu áður en það er gert,“ sagði Friðrik á fundi Samtaka iðnaðarins þar sem rætt var um íslenskan raforkumarkað.

Hann telur æskilegt að orkufyrirtækin á samkeppnissviði lúti sömu lögmálum og annar atvinnurekstur. Það sé hlutverk löggjafans að setja almennar reglur, t.d um umhverfisvernd, skipulagsmál, leyfisveitingar og o.fl.

Verðmæti felast í sérþekkingu og reynslu Íslendinga

Þá segir hann sérþekkingu, kunnáttu og reynslu Íslendinga í orkumálum vera verðmæti sem eigi að selja. „Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að leyfa raforkufyrirtækum að vaxa og dafna. Verkefnum mun fækka hér á landi á næstu árum. Eftir fimm til tíu ár þá fækkar þeim verulega og þess vegna er ekki seinna vænna að hugsa fyrir því.“

Friðrik segir að það sé ekki heppilegt að fyrirtæki á samkeppnismarkaði séu í opinberri eigu. Hann segir þetta eiga við fyrirtæki í orkuiðnaði líkt og með önnur fyrirtæki. Hafa beri í huga að nokkur orkufyrirtæki séu nú þegar í hluthafaformi. Hann bendir á að Hitaveita Suðurnesja, Orkuveita Húsavíkur og Norðurorka geti hvenær sem er tekið ákvörðun um að einkavæðast. „Það er bara spurning um vilja eigendanna,“ sagði Friðrik.

Friðrik spurði hvers vegna það eigi að banna það með lögum að hið opinbera geti framselt orkuauðlindir sínar. „Það á bara að vera þeirra sjónarmið sem fara með þessar eignir hvort þeir vilja leigja eða selja. Þetta eru ekki einhverjar eignir sem hafa alltaf verið hér í ríkiseign. Þetta eru eignir sem koma fyrst og fremst frá einkaaðilum,“ sagði hann.

Ríki og sveitarfélög megi eiga orkulindirnar, en það sé hinsvegar engin nauðsyn að færa þetta undir vald ríkisins með þeim hætti að það sé bannað að selja þessar orkulindir. Þeim megi einungis ráðstafa með leigu í tiltekinn tíma. Friðrik segir Norðmenn hafa farið þessa leið og lent í stórkostlegum vanda af þeim sökum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert