Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fráfarandi borgarstjóri, lagði fram tillögu um það á fundi borgarstjórnar að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að styðja málsókn Svandísar Svavarsdóttur um boðun á eigendafund Orkuveitu Reykjavíkur. Lagði Vilhjálmur það til fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki og taka undir bókun Svandísar Svavarsdóttur á eigendafundi í Orkuveitu Reykjavíkur hinn 3. október 2007 um lögmæti hans og þá ákvörðun sem á honum var tekin um samning um aðgang að tækniþjónustu o fl.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir þetta afskaplega skýr skilaboð og þeim beri að fagna. Nýr meirihluti leggi mikla áherslu á að setja orkumál og alla þá umræðu í þann farveg að allir í borgarstjórn hafi aðgang að. Segir Dagur að þau skilaboð sem komi nú frá minnihlutanum sé gott að fá en þau verði að vera af fullum heilindum. Sagði Dagur að á kjörtímabilinu verði engar stórar breytingar gerðar á stjórnkerfi borgarinnar þar sem félagshyggjustjórn sé komin til valda sem hafi málefni fólksins í borginni að leiðarljósi.