Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fráfarandi borgarstjóri kvað sér hljóðs á fundi borgarstjórnarinnar sem nú stendur yfir og óskaði nýjum borgarstjóra velfarnaðar í starfi. Vilhjálmur segir að starf borgarstjóra sé oft á tíðum erfitt og ráðlagði nýjum borgarstjóra að rækta sambandið við íbúa borgarinnar.
Hann sagðist vonast til þess að meirihluti og minnihluti geti unnið vel saman. Hingað til hafi náðst samstaða um sum mál en ekki önnur og hann eigi von á því að svipað verði upp á teningnum áfram.
Að sögn Vilhjálms er margt á döfinni hjá borginni hvað varðar húsnæðismál öryrkja og eldri borgara. Sagði Vilhjálmur að það þyrfti að fara í átak í að bæta stöðu fólks í borginni sem er heimilislaust. Fólk sé í neyð í borginni og það sé ekki ásættanlegt. Þessu þurfi að sinna betur heldur en fráfarandi meirihluti gerði, að sögn fráfarandi borgarstjóra.
Vilhjálmur benti á það að sennilega vildi enginn í borgarstjórn Reykjavíkurborgar búa við þau kjör sem ýmsir borgarbúar búa við og það fé sem þeir hafa á milli handanna.
Spurt út í Vatnsmýrina - flugvöllur áfram eða í burtu?
Að sögn Vilhjálms hljóta íbúar í Reykjavík að eiga rétt á því að vita hver séu stefnumál nýs borgarmeirirhluta. Ekki sé nóg að segjast vera þverpólitísk félagshyggjustjórn heldur verður að skýra málefnin út og hvernig taka eigi á þeim. Vilhjálmur spurði nýjan meirihluta hvað hann ætli sér hvað varðar Vatnsmýrina en það hafi verið eitt heitasta málið fyrir síðustu kosningar og sagði Vilhjálmur að afstaða Frjálslyndra í undanfara kosninganna hafi fleytt fulltrúa flokksins inn í borgarstjórn. Spurði Vilhjálmur nýjan meirihluta hvernig hann ætli sér að ná saman í flugvallarmálinu þar sem Frjálslyndir hafi lýst því yfir að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni en VG hafi hins vegar sagt að flugvöllurinn ætti að fara úr Vatnsmýrinni.