Grímseyjarferjumálið hefur verið dæmalaust klúður frá upphafi til enda og ekki eru öll kurl komin til grafar enn. Þetta kom fram í máli Birkis J. Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, en hann var málshefjandi í utandagskrárumræðum um fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju á Alþingi í gær. Birkir sagði Alþingi og ríkisstjórn hafa verið leynd mikilvægum upplýsingum um málið. Fjármálaráðuneytið, samgönguráðuneytið og Vegagerðin hefðu síðan gert með sér samkomulag um að ef vantaði fjármagn upp á myndi fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt.
"Staðreyndin er þessi: Ríkisstjórnin heimilaði kaup og endurbætur á Grímseyjarferjunni upp á 150 milljónir króna. Nú er ljóst að kostnaðurinn verður að minnsta kosti 500 milljónir króna: Rúmlega 300% hækkun. Allt byggt á samkomulagi sem ekki var gert opinbert. Allt byggt á samkomulagi sem fulltrúi fjármálaráðherra átti aðild að," sagði Birkir Jón og sagði sjálft fjármálaráðuneytið hafa farið á svig við fjárreiðulög. "Er það virkilega svo, hæstvirtur forseti, að það ætli enginn að viðurkenna ábyrgð sína í þessu máli?"