Í gær bar kýrin Blökk myndarlegum nautkálfi í Húsdýragarðinum. Kálfurinn sem er rauður var 44 kg við burð og braggast vel. Kálfurinn hefur fengið nafnið Ulrik.
Ulrik býr í fjósinu ásamt kúnum Blökk, Skræpu og Bröndu, kvígunni Stjörnu og nautkálfunum Muggi og Blakki. Þá eru einnig í fjósinu gylturnar Freyja og Frigg og gölturinn Gullinbursti og svo auðvitað litlu grísirnir þeirra Friggjar og Gullinbursta sem komu í heiminn þann 29. september síðastliðinn. Þá er kýrin Skræpa að nálgast burð og má því segja að það sé mikil frjósemi í fjósinu nú á haustmánuðum, samkvæmt upplýsingum úr Húsdýragarðinum.