Hafrannsóknastofnun og HB-Grandi vinna nú að rannsóknaverkefni í veiðitækni sem miðar að því að aðskilja fiskitegundir áður en afli er kominn um borð í veiðiskip. Felst tilraunin í því að aðskilja þorsk og ýsu í botnvörpu þannig að tegundirnar hafni í sitt hvorum vörpupokanum. Fjallað er um verkefnið á vef Hafrannsóknarstofnunar og segir þar m.a. að við þær aðstæður sem nú séu á Íslandsmiðum eigi sjómenn ekki hægt um vik með að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þeirra um samsetningu afla.
Þetta sé sérlega erfitt þegar sótt sé í tvo eða fleiri stofna sem haldi sig á sömu svæðum, en hlutfall veiðiheimilda í tegundirnar sé ekki í samræmi við dreifingu þeirra á miðunum, líkt og nú er með þorsk- og ýsustofnana á Íslandsmiðum.
Þá segir að HB-Grandi hafi boðið stofnuninni Örfirisey RE 4 til rannsóknirnar sem fram fari dagana 12. – 20. október. Er rannsóknin framkvæmd þannig að þil úr neti er sett í endilanga vörpuna þannig að fiskur sem heldur sig ofarlega í vörpunni safnast í annan hluta poka en sá sem heldur sig í neðri hluta vörpunnar.